Ásdís Rósa Ásgeirsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Landmark fasteignasölu og tekur hún við starfinu af Magnúsi Einarssyni fráfarandi framkvæmdastjóra.

Magnús hefur verið aðaleigandi Landmark og byggt fyrirtækið upp allt frá stofnun en hann hefur ákveðið að hverfa til annarra starfa og seldi hann öðrum hluthöfum sinn hlut í fyrirtækinu.

Ásdís Rósa er lögfræðingur og löggiltur fasteignasali að mennt og hefur starfað við fagið í rúm fimm ár.

Landmark fasteignasala fagnar áttunda starfsári sínu á þessu ári og hefur nýlega flutt starfsemi sína í stærra húsnæði að Hlíðasmára 2 vegna aukinna umsvifa, en í dag starfa 12 manns hjá fyrirtækinu.

„Ég tek við góðu búi á Landmark og næstu misseri eru mjög spennandi á fasteignamarkaði,“ er haft eftir Ásdísi í fréttatilkynningu.

„Framboð nýbygginga fer að aukast á árinu og mun það að nýju færa meira líf í markaðinn. En númer eitt er að ástunda vönduð vinnubrögð og sinna viðskiptavinum vel. Það verður mitt markmið.“