Ásdís Ýr Pétursdóttir hefur verið ráðin sviðsstjóri samskiptasviðs Actavis á Íslandi. Ásdís mun stýra innri og ytri samskiptum Actavis hér á landi og jafnframt sitja í framkvæmdastjórn félagsins.

Ásdís starfaði hjá Bakkavör Group á árunum 2005-2011, síðustu árin sem forstöðumaður samskiptasviðs, en hefur starfað sjálfstætt undanfarin tvö ár sem ráðgjafi í almannatengslum. Áður starfaði hún við markaðs- og kynningarmál hjá Háskólanum í Reykjavík eftir nokkur ár við störf í London hjá tæknifyrirtækinu Matrox og sem almannatengslaráðgjafi.

Ásdís lauk BA gráðu í almannatengslum frá Mount Saint Vincent University í Kanada árið 2001 en stundaði einnig nám í tungumálum við háskólana í Heidelberg í Þýskalandi og Salamanca á Spáni.