Ásdís Kristinsdóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri undirbúnings fyrir nýtt nám í jarðvinnu sem ætlað er að stuðla að nýliðun í faginu og auka gæði, skilvirkni og tækninýjungar í atvinnugreininni.

Verkefni Ásdísar er að koma á formlegu jarðvinnunámi á framhaldsskólastigi sem undirbýr nemendur undir margvísleg störf við jarðvinnu og getur jafnframt verið grunnur frekara náms. Að undirbúningnum standa Samtök iðnaðarins, Félag vinnuvélaeigenda, Tækniskólinn og mennta- og menningarmálaráðuneytið sem eiga fulltrúa í stýrihóp verkefnisins.

Ásdís er með BSc í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands og MSc í vélaverkfræði frá Canterbury University á Nýja Sjálandi. Hún hefur áratuga reynslu úr orku- og veitugeiranum en þar starfaði hún lengst af sem forstöðumaður Verkefnastofu og síðar sem forstöðumaður Tækniþróunar Veitna.

Ásdís hefur setið í stjórnum Gagnaveitu Reykjavíkur, Keilis – miðstöðvar fræða og vísinda, Metans og Nýorku. Hún starfar nú sem stjórnunarráðgjafi hjá Gemba og kennir straumlínustjórnun við Háskóla Íslands.