„Hagvöxtur síðasta árs staðfestir hversu langt við erum í raun komin í efnahagsbatanum. Vöxturinn var að mestu drifinn áfram af innlendri eftirspurn, einkum fjárfestingu, en fara þarf aftur til ársins 2006 til að finna viðlíka vöxt þess liðar. Önnur jákvæð merki hafa einnig komið fram, atvinnuleysi hefur gengið hratt niður, ríkissjóður er farinn að skila afgangi, gengið hefur verið nokkuð stöðugt, verðbólgan hefur gengið niður og er undir einu prósentustigi sem er stórmerkilegt miðað við okkar verðbólgusögu. Þá er afgangur af viðskiptum okkar við útlönd, þökk sé miklum vexti ferðaþjónustunnar,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.

Ásdís nefnir að ríkissjóði hafi tekist að fjármagna sig á erlendum mörkuðum og kjörin fari batnandi með hverri útgáfu. Hið sama sé hægt að segja um viðskiptabankana sem hafi sótt fjármagn á erlenda markaði og nú síðast Arion banki. „Þannig blasir við að íslenskt hagkerfi hefur sjaldan litið betur út. Eftir stendur að þessi stöðugleiki myndast innan fjármagnshafta og því ekki um raunverulegan stöðugleika að ræða,“ segir hún.

Aðspurð um gjaldeyrishöftin svarar Ásdís: „Höft eru skaðleg til langs tíma. Þau skref sem hafa verið stigin að undanförnu eru frekar til þess fallin að herða á höftum en að losa um þau og það gerist þrátt fyrir að að­ stæður geti vart verið betri fyrir afnám hafta. Vaknar því sú spurning hvort vilji stjórnvalda standi raunverulega til að losna úr haftaumhverfi eða hvort upplifa eigi enn eitt þenslutímabilið en að þessu sinni innan hafta.“

Spjallað er við Ásdísi í Áhrifakonum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .