„Starfið leggst vel í mig, ég er mjög spennt að koma þarna inn og fá að byggja upp deildina frá grunni. Ég fæ fremur frjálsar hendur sem ég tel að sé mikill kostur,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir. Hún hefur síðastliðin tvö ár verið forstöðumaður greiningardeildar Arion banka en mun í næsta mánuði taka við nýju efnahagssviði hjá Samtökum atvinnulífsins (SA) sem sér um hagrannsóknir. Sviðið mun jafnframt sjá um grein­ingu á atvinnulífi og efnahags­lífi. Efnahagssvið SA mun sinna fjölbreyttri greiningarvinnu í tengslum við íslenskt efnahags­ og atvinnulíf. Það sem felst meðal annars í starfi Ásdísar er að byggja upp þjóðhagslíkan fyrir samtökin auk annarrar greiningarvinnu eft­ir því sem talið verður tilefni til.

Ásdís hefur starfað á greiningardeild Arion banka, og þar áður á greiningardeild Kaupþings. Hún er með BSc.-gráðu í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og með meistaragráðu í hagfræði frá HÍ. Árið 2010 varð hún svo löggiltur verðbréfamiðlari.

„Þegar ég hef tíma þá finnst mér mjög notalegt að fara snemma upp í rúm og lesa góða bók,“ segir Ásdís.

Nánar er rætt við Ásdísi og nýja starfið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .