Meint brot sænska félagsins Aserta AB og einstaklinga sem tengjast félaginu á gjaldeyrisreglum eru enn til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara og er rannsókn langt á veg komin. Ólafur Þ. Hauksson, sérstakur saksóknari, vill að öðru leyti ekki tjá sig um mál­ið að svo stöddu.

Greint var frá því í Morgunblaðinu í júní að sérstakur saksóknari hafi boð­að fjórmenningana, sem liggja undir grun um að hafa brotið lög með gjaldeyrisviðskiptum, til skýrslutöku. Þeir eru Karl Löve Jóhannsson, Gísli Reynis­son, Ólafur Sigmundsson og Markús Máni Michaelsson.

Í nóv­ember 2009 kærði Fjármálaeftirlitið (FME) mennina til efnahagsbrotadeildar sem fór með rannsókn málsins þar til deildin var sameinuð embætti sérstaks saksóknara. Rúmir 33 mánuðir eru síðan fulltrúar Seðlabankans, FME og efnahagsbrotadeild tilkynntu um málið á blaðamannafundi.