Rannsakandi hjá Fjármálaeftirlitinu fékk greitt fyrir að afla viðskipta fyrir félagið Aserta árið 2009, að því er fram kemur í Fréttablaðinu í dag. Á sama tíma voru forsvarsmenn Aserta ákærðir fyrir að hafa framið meiri háttar brot á gjaldeyrislögum þegar þeir stunduðu viðskipti með gjaldeyri fyrir um 14,3 milljarða króna og haft alvarleg áhrif á gengi íslensku krónunnar. Í Fréttablaðinu segir ennfremur að viðskipti þeirra hafi tafið fyrir lækkunarferli stýrivaxta hjá Seðlabankanum.

Þeir sem ákærðir eru í Aserta-málinu svokallaða eru þeir Gísli Reynisson, Karl Löve Jóhannsson, Markús Máni Michaelsson og Ólafur Sigmundsson. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í vor.

Fjórmenningarnir eiga að hafa hagnast um hundruð milljóna króna á viðskiptunum.

Á meðal þeirra sem áttu að bera vitni í málinu var Ingibjört Guðbjartsdóttir. Hún er forstöðumaður gjaldeyriseftirlits Seðlabankans. Hún veitti fjórmenningunum ráðgjöf um gjaldeyrisviðskipti þegar hún vann hjá Straumi Burðarási. Ingibjörg tilkynnti svo meint brot fjórmenninganna á gjaldeyrishöftum til Fjármálaeftirlitsins. Hæstiréttur úrskurðaði svo á þriðjudag að henni sé ekki heimilt að bera vitni í málinu.

Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um Aserta-málið 4. apríl síðastliðinn. Áskrifendur geta nálgast blaðið í heild hér að ofan undir liðnum tölublöð .