„Nú er bara verið að skipta dánarbúinu upp með hagsmuni kröfuhafa í huga, erfingjarnir eru dottnir út. Ekkert er til skiptanna fyrir þá,“ segir Jón G. Briem, sem fer með dánarbú athafnamannsins Ásgeirs Þór Davíðssonar, sem þekktur var í lifanda lífi sem Geiri í Goldfinger.

Ásgeir lést langt fyrir aldur fram í apríl, 62 ára að aldri. Óhætt er að segja að gustað hafi um Ásgeir, sem rak fjölda skemmtistaði í gegnum tíðina, m.a. Hafnarkrána í Reykjavík og nektardansstaðinn Goldfinger í Kópavogi.

Kröfur í dánarbú Ásgeirs nema um 200 milljónum króna og á það ekki fyrir skuldum. Landsbankinn og Drómi, þrotabú Frjálsa fjárfestingarbankans og SPRON, eiga megnið af kröfunum eða upp á milli 180 til 190 miljónir króna.

Skiptastjórinn Jón kynnti erfingjum dánarbús Ásgeirs stöðuna fyrir skömmu og sagði hann þeim að ekki væri víst að eignir dugi fyrir skuldum. Af þeim sökum hyggist hann fara þaðan í frá með skipti á dánarbúinu eftir lögum um gjaldþrotaskipti. Eignir verða samkvæmt því seldar upp í kröfur.

Átti í félögum sem stefna í þrot

Í dánarbúi Geira eru þrjár fasteignir á höfuðborgarsvæðinu og hlutir í nokkrum einkahlutafélögum sem standa illa. Skiptastjóri segir sölu á íbúðunum langt komna og búið að samþykkja kauptilboð í þær. Þá átti Geiri matsölustaðinn Steak and Play við Grensásveg, sem farinn er í þrot.

Þessu til viðbótar átti Geiri 70% hlut í fjölskyldufélaginu Ásgeir Þór og synir ehf. Félagið á fasteignina þar sem nektardansstaðurinn Goldfinger er til húsa. Félagið tapaði 53,7 milljónum króna árið 2010, skuldaði 135 milljónir og var eigið fé þess neikvætt um 156 milljónir króna í lok ársins. Félagið átti árið 2010 þrjár fasteignir sem bókfærðar voru á 84,9 milljónir króna. Dánarbúið á nú félagið og mun óska eftir gjaldþrotaskiptum þess um mánaðamótin.

Jón G. Briem býst við því að sá sem leigi húsnæðið undir Goldfinger nú um stundir muni gera það áfram þótt dánarbúið selji fasteignina.

Viðskiptablaðið sem kemur út á morgun er sneisafullt af efni. Á meðal þess sem í blaði morgundagsins er :

  • Karl Wernersson með tæpar 3 milljónir í mánaðarlaun
  • Tónlistarveitan Gogoyoko ekki lengur rekstrarhæf
  • Vodafone metið á 9,7 til 11,2 milljarða
  • Skattakóngurinn að Vatnsenda tapar gegn frændfólki
  • Strika út 46 milljarða af yfirfæranlegu tapi fyrirtækja og félaga
  • Arctica Finance með bestu afkomu smærri fjármálafyrirtækja í fyrra
  • Gott gengi hjá Subway
  • Réttarstaða sjúklinga orðin veikari
  • Ingibjörg Ólafsdóttir, hótelstýra á Hótel Sögu, fer yfir reksturinn í ítarlegu viðtali
  • Kröfuhafar fá mikið úr þrotabúi félags Hannesar Smárasonar
  • Rjúpnaveiðimenn ósáttir við stóran refastofn
  • Nærmynd af Önnu Maríu, innkaupastjóra Brammer
  • Allt um kraftinn í nýjustu bílunum
  • Óðinn fjallar um íslenska hagkerfið í nýjasta pistli sínum
  • Huginn & Muninn eru á sínum stað auk Týs sem skrifar um einkarekstur í menntakerfinu
  • Myndasíður, pistlar og margt, margt fleira