Þegar grannt er hlustað virðist sem umræðan um afnám verðtryggingar snúist raunar mun frekar um niðurfærslu útistandandi lána fremur en breytt lánaform framtíðar, að mati Dr. Ásgeirs Jónssonar hagfræðings, sem skrifar grein um verðtrygginguna nýjasta tölublaði Vísbendingar.

Hann segir að hvað sem fólki finnist um réttmæti slíkrar niðurfærslu sé ljóst að kostnaðurinn vegna hennar fellur á skattgreiðendur og hér sé um stórar fjárhæðir að tefla. Verðtryggð fasteignalán heimilanna séu nú um 1.150 milljarðar króna og kostnaðurinn við að færa höfuðstól verðtryggðra lána aftur til ársins 2008 gæti verið 350-400 milljarðar króna.

„Af þessum lánum eru 57% veitt af Íbúðalánasjóði með ábyrgð ríkisins en 15% eru frá lífeyrissjóðum komin. Almenn niðurfærsla verðtryggðra lána er því í raun bein tekjufærsla frá þeim skattgreiðendum og lífeyrisþegum sem hafa ekki náð að skuldsetja sig nægjanlega til þess að hljóta slíka leiðréttingu. Flestir í þessum hópi voru líklega of ungir (og kannski ófæddir) eða of gamlir til þess að taka þátt í húsnæðisbólunni 2004-2008 en þurfa samt að borga kostnaðinn við hana í framtíðinni með hærri sköttum og/eða lægri lífeyri,“ segir í greininni.

Verðtrygging gefur kost á mikilli skuldsetningu með lítilli upphafsgreiðslubyrði

Ásgeir segir að verðtrygging húsnæðislána hvílir á tveimur meginstoðum. Annars vegar á verðtryggingu lífeyrisréttinda sem hafi skapað gríðarlega eftirspurn eftir löngum verðtryggðum eignum og hins vegar á ríkisábyrgð á útgáfum Íbúðalánasjóðs sem hafi fullnægt þessari eftirspurn án þess að lífeyrissjóðirnir hafi þurft að hafa áhyggjur af útlánaáhættu. Sé þessum tveimur stoðum kippt undan falli verðtryggingin sjálfkrafa niður að miklu leyti og við tækju væntanlega lán með breytilegum nafnvöxtum sem yrðu veitt af bönkunum.

Að lokum segir hann að meginvandinn nú sé ekki endilega sá að lánin hafi fylgt verðbólgu með verðtryggingu heldur mun fremur að fasteignaverð og laun hafi ekki gert það á síðustu 4 árum. Besta leiðin út úr skuldavandanum felist í hagvexti og hækkandi ráðstöfunartekjum.

„Af öllum sólarmerkjum af dæma er verðtrygging á leið út af íslenskum fjármagnsmarkaði. Hins vegar er viðbúið að áfram verði töluverð eftirspurn eftir þessum verðtryggðu lánum þar sem þau gefa færi á mikilli skuldsetningu með lítilli upphafsgreiðslubyrði og gefa því fólki færi á því að kaupa mun stærri eignir en óverðtryggð lán. Og það er meginástæðan fyrir almennri notkun verðtryggingar hérlendis í lánaviðskiptum. Enginn veit hvað átt hefur, fyrr en misst hefur.“

Lesa má greinina í heild sinni á vefsíðu GAMMA .