Á fundi Alþjóðaflugmálastofnunarinnar í París í síðustu viku var Ásgeir Pálsson, framkvæmdastjóri flugleiðsögusviðs Isavia endurkjörinn formaður NATSPG (North Atlantic Systems Planning Group) til næstu fjögurra ára. Ásgeir hefur verið formaður nefndarinnar lengur en nokkur forvera hans eða frá árinu 1997. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Hlutverk NATSPG er að annast eftirlit með gæðum flugleiðsöguþjónustu innan NAT svæðis ICAO, en það spannar loftrýmið yfir Atlantshafinu frá norðurpól að 45 gráðum norðlægrar breiddar. Einnig stjórnar NATSPG innleiðingu nýrrar tækni, vinnuaðferða og staðla. Innan NATSPG starfa 13 sérfræðihópar sem fjalla um öryggi flugs, vinnuaðferðir og búnað í flugleiðsögukerfum og loftförum.

Aðildarlönd NATSPG eru Bandaríkin, Kanada, Ísland, Noregur, Danmörk, Stóra Bretland, Írland, Frakkland og Portúgal. Auk þeirra taka þátt fulltrúar frá IATA (alþjóðasamtökum flugfélaga), IBAC (alþjóðasamtökum flugrekenda einkavéla), IFALPA (alþjóðasamtök flugmanna), IFATCA (alþjóðasamtökum flugumferðastjóra) og INMARSAT (veitanda gervihnattaþjónustu).