„Ég ætla ekki að gefa það upp. Það er ekki hægt miðað við núverandi aðstæður enda ekki búið að gefa til kynna hvaða breytingar verða gerðar á Seðlabankanum,“ segir hagfræðingurinn Ásgeir Jónsson spurður hvort hann ætli að sækja aftur um stöðu seðlabankastjóra þegar hún verður auglýst.

Ásgeir, sem er lektor við HÍ og efnahagsráðgjafi Gamma, segir jafnframt aðstæður hjá sér aðrar nú en þá og sé hann mjög ánægður í starfi sínu. Eins og greint var frá í síðustu viku hefur Má Guðmundssyni verið tilkynnt að staða hans verði auglýst laus til umsóknar. Hann var skipaður í stöðuna um sumarið 2009 og rennur skipunartími hans út í ágúst.

Már var á meðal átta umsækjenda um stöðu seðlabankastjóra. Á meðal annarra voru Þorvaldur Gylfason, Yngvi Örn Kristinsson og Tryggvi Pálsson hagfræðingur ásamt hagfræðingunum Rannveigu Sigurðardóttur, Arnóri Sighvatssyni og Jóhanni Rúnari Björgvinssyni.