*

föstudagur, 23. október 2020
Innlent 26. ágúst 2020 11:42

Ásgeir: Gjaldeyrisstefna SB er skýr

Seðlabankastjóri brýndi fyrir fólki að gjaldeyrisinngrip bankans undanfarna daga séu samkvæmt opinberri stefnu.

Alexander Giess
Nettó gjaldeyrissala Seðlabanka Íslands hefur numið um 29 milljörðum króna á árinu sem er um 3% af gjaldeyrisforða bankans.
Haraldur Guðjónsson

Ásgeir Jónsson sagði á fundi peningastefnunefndar –  þegar vaxtaákvörðun bankans og efni peningamála voru útskýrð – að bankinn hafi verið að vinna samkvæmt gjaldeyrisstefnu sinni. Hann segist ekki skilja hvernig einhverjum datt í hug að segja aðgerðir Seðlabankans undanfarna daga hafi verið í andstöðu við stefnu bankans.

Sjá einnig: Fer gegn eigin gjaldeyrisstefnu

Vitnar hann í fundargerðir peningastefnunefndar þar sem markmið um gjaldeyrisinngripastefnu Seðlabankans kemur fram. Í skýrslu bankans 7. júlí 2017 kemur meðal annars fram að meginmarkmið Seðlabankans sé að vinna gegn óhóflegum skammtímasveiflum í gengi krónunnar. 

„Stefnan gerir ráð fyrir að draga úr skammtímasveiflum. Það getur átt við um dagssveiflur, vikusveiflur eða lengri þegar krónan er á leið út úr jafnvægi. Það er misskilningur að bankinn bregðist bara við skrúfumyndunum innan dags. Ég veit ekki alveg hvernig sá „erribus“ komst á kreik, svo ég vitni í Árna Magnússon,“ sagði Ásgeir á fundinum í morgun.

Einhverjir hagfræðingar hafa verið að undra sig á gjaldeyrisviðskiptum Seðlabankans undanfarna daga og sagt að bankinn sé ekki að fara eftir eigin stefnu. Hafi þeir skilið sem svo að opinber stefna bankans sé að grípa inn í til að leggjast gegn spíralmyndun. Konráð S. Guðjónsson hagfræðingur sagði við Viðskiptablaðið í gær að „Miðað við hreyfingar á síðustu vikum þá er einhver önnur stefna í gangi“. Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, tók í sambærilegan streng í frétt Markaðarins í dag.

Sagði Ásgeir að forveri hans, Már Guðmundsson, og peningastefnunefnd sem þá var hafi mótað inngripastefnu bankans. Síðan þá hafi Seðlabankinn að einhverju leyti haldið áfram að vinna samkvæmt henni, það fari samt eftir aðstæðum í þjóðarbúskapnum.

Segir hann að forðinn sé núna 970 milljarðar króna og hafi nettó gjaldeyrissala bankans á árinu numið um 200 milljónum evra, andvirði 29 milljarða króna, um 3% af gjaldeyrisforðanum. Gjaldeyrir hafi verið seldur fyrir 260 milljónir evra en keyptur fyrir um 60 milljónir evra í maí þegar gengið hækkaði. Segir Ásgeir að bankinn hafi selt fyrir 66 milljónir evra í síðustu viku og hafi með því verið að bregðast við skammtímasveiflum.