Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings, telur fréttir af gjaldeyrisskiptasamningum Seðlabanka Íslands við norrænu Seðlabankana vera jákvæðar og skref í rétta átt.

„Þetta eru mjög jákvæðar aðgerðir. Svona lánalínur eru í fyrsta lagi heppilegar að því leyti að þær eru ódýrari en lántaka sem er mjög dýr við núverandi aðstæður. Í öðru lagi felst í þessu ákveðin stuðningsyfirlýsing frá norrænu Seðlabönkunum, í þessu felst ákveðið bræðralag. Í þriðja lagi hafa svona línur engin áhrif á skuldastöðu landsins, sem er mjög jákvætt“ sagði Ásgeir í samtali við Viðskiptablaðið.

Ásgeir telur þó að frekari aðgerðir séu á döfinni. „Seðlabankinn gefur mjög sterklega til kynna að hann sé að tala við aðra Seðlabanka, við gætum séð einhver loforð líka frá stærri Seðlabönkunum um að koma upp fleiri lánalínum. Því fleiri línur því betra.“

Ásgeir sagði einnig að það að byggja um gjaldeyrissjóð bara með því að taka lán hækkaði auðvitað skuldahlutfall landsins, væri mjög dýrt og ekki sniðugt. Hins vegar hefðu samningarnir sem Seðlabankinn kynnti í dag engin áhrif á lántöku, hún sé ennþá valkostur.