Ásgeir Jónsson
Ásgeir Jónsson
© BIG (VB MYND/BIG)
Ásgeir Jónsson, fyrrum forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings og síðar Arion banka, fékk ekki viðurkennda um 1,3 milljóna króna forgangskröfu í þrotabú Kaupþings. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í málinu í dag.

Krafa Ásgeirs byggði á samningi um bónusgreiðslur tengdar gengi í Kaupþingi frá 1. janúar 2006. Samkvæmt samningum átti hann að fá bónusgreiðslur sem skyldu taka mið af hlutabréfakaupum sem voru gerð að fjárhæð 16,5 milljónir króna á genginu 600. Sú hækkun sem yrði á genginu til 1. október 2008 skyldi greiðast út sem bónusgreiðslur í lok samningstímabilsins. Í dóminum kemur fram að greiðslurnar áttu að vera tvær og fékk Ásgeir þá fyrri greidda í samræmi við samninginn þann 1. október 2008.

Hinsvegar varð ekkert af síðari greiðslunni, sem átti að vera 1. janúar 2009. Þá var búið að skipa slitastjórn yfir bankanum. Ásgeiri var sagt upp störfum þann 29. október 2008, í kjölfar falls bankans. „ Í 4. gr. samningsins eru ákvæði um bónusgreiðslur við starfslok. Í 1. mgr. 4. gr. hans er kveðið á um áhrif uppsagnar starfsmanns fyrir þann tíma sem bónusgreiðslur skyldu greiddar (1. október 2008), en í því tilviki skyldu bónusgreiðslur falla niður. Jafnframt segir í 1. mgr. 4. gr. samningsins að ef komi til starfsloka í kjölfar skipulagsbreytinga KB banka eða tilfærslna í starfi sé litið svo á að starfsmaður segi sjálfur upp störfum og hafi þá bankinn fullan ákvörðunarrétt um hvort bónus skuli greiddur,“ segir í niðurstöðu dómsins.

„ Í 2. mgr. 4. gr. samningsins er kveðið á um starfslok sem verða fyrir 1. janúar 2009. Með sama hætti og í 1. mgr. 4. gr. samningsins er kveðið á um áhrif þess á bónusgreiðslur að starfsmaður segi sjálfur upp störfum, fyrir 1. janúar 2009, að starfsmanni sé sagt upp vegna brota í starfi, eða hann uppfylli ekki önnur skilyrði samningsins. Í þessum tilvikum hafi KB banki rétt á að fella niður allar bónusgreiðslur sem tengjast samningi þessum.“

Um túlkun þessa atviks var tekist á fyrir dómi. Að mati dómara leiddu skipulagsbreytingar við skipan skilanefndar til þess að, samkvæmt ákvæði samningsins, Kaupþingi er í sjálfvald sett hvort bankinn greiði bónusinn eða ekki. Forgangskröfunni var hafnað af slitastjórn og staðfesti dómari þá ákvörðun.