Eftir á að hyggja eru gjaldeyrishöftin nauðsynlegt böl. Án þeirra hefði verið afar erfitt að endurskipuleggja bankakerfið.

Þetta sagði Ásgeir Jónsson, aðalhagfræðingur Arion banka, á morgunfundi bankans í dag. Yfirskrift fundarins var „Gjaldeyrishöftin og framtíð krónunnar - nauðsynlegt böl?“.

Ásgeir sagði að í fyrstu hafi hann verið mótfallinn setningu gjaldeyrishaftanna. Eftir á að hyggja sé þó ljóst að mjög erfitt hafi verið að endurreisa fjármálakerfið án þeirra. Seðlabanki Íslands hafi hinsvegar verið of seinn að nýta sér gjaldeyrishöftin. Það skref sem bankinn tók í gær hafi hann átt að taka fyrir ári síðan. Ásgeir sagði að fyrir vikið verði kreppan dýpri en ella.

Þá ræddi Ásgeir mögulegar leiðir Íslendinga í gjaldeyrismálum.  Hann sagðist ekki viss um að Íslendingar séu tilbúnir til að búa við fljótandi gengi. Hann benti á að við fljótandi gengi sé engin hærri og lægri mörk og feli því í sér gengissveiflur. Því sé ekki hægt að tala um forsendubrest þegar krónan féll.

Ef Íslendingar ákveða að ganga í Evrópusambandið þá verði næsta skref að sækja um aðild að evrunni, sagði Ásgeir. Hann sagðist þess fullviss að áhrifa á íslensku krónuna myndi gæta strax við inngöngu, enda séu fjármálamarkaði framsýnir.