Dr. Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, hefur verið ráðinn sem efnahagsráðgjafi Virðingar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Ásgeir hefur skrifað bækur og fjölda greina um efnahagsmál á undanförnum árum, auk þess að sinna kennslu á sviði hagfræði og fjármála. Ásgeir hefur jafnframt verið lektor við hagfræðideild Háskóla Íslands frá 2004 og dósent við sama skóla frá árinu 2014. Hann lauk doktorsprófi í hagfræði með áherslu á peningahagfræði, alþjóðaviðskipti og hagsögu frá Indiana University árið 2001.

Ásgeir hóf starfsferillinn sem hagfræðingur hjá Verkamannafélaginu Dagsbrún árið 1994. Hann tók við starfi sem aðalhagfræðingur Kaupþings í ársbyrjun 2004, var forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings á árunum 2006–2008 og gegndi síðan sömu stöðu hjá Arion banka á árunum 2008 til 2011. Ásgeir starfaði sem efnahagsráðgjafi verðbréfafyrirtækisins GAMMA þar til í desember á síðasta ári.

„Það er gríðarmikill fengur í því að fá Ásgeir til liðs við Virðingu. Fáir búa yfir jafn mikilli reynslu af greiningum á fjármálamarkaði og hann, enda hafa kraftar hans verið mjög eftirsóttir á sviði peningahagfræði, fasteignamarkaðar og almennrar þjóðhagfræði,“ segir Hannes Frímann Hrólfsson, forstjóri Virðingar.