Seðlabankinn telur tillögur fimm þingmanna Framsóknarflokksins um viðspyrnulán til atvinnuþróunar ekki nægilega vel reifaðar til að hægt sé að taka til þeirra endanlega afstöðu, og telur upp sex númeraða vankanta á þeim.

Þetta kemur fram í umsögn Seðlabankans um tillögur til þingsályktunar um ríkisábyrgð á viðspyrnulánum til atvinnuþróunar sem Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Júníusdóttir, framkvæmdastjóri skrifstofu bankastjóra Seðlabankans, skrifa undir.

Þingsályktunartillagan felur í sér að stjórnvöld hvetji til fjárfestinga í atvinnuþróun vegna samdráttar af völdum heimsfaraldursins kórónuveirunnar. Það sé gert með því að greiða fyrir aðgengi að svokölluðum atvinnu- og gjaldeyrisskapandi atvinnuþróunarverkefnum að lánsfjármagni með ríkisábyrgð á lánum.

Áhættan og eftirlitið aðskilið

Meðal vankantanna sem Seðlabankinn telur upp eru að stuðningsaðgerðirnar sem þar séu boðaðar horfi til lengri tíma en bara vegna áhrifa heimsfaraldursins og umboðsvanda vegna þess að eftirlitið með lánunum hvíli hjá lánafyrirtækjum en áhættan hjá ríkissjóði.

Jafnframt veltir hann því upp hver rökin fyrir því að núverandi aðgerðir dugi ekki til sem og hvort þessar tillögur brjóti í bága við samkeppnisreglur EES svæðisins.

Loks að það skorti á skilgreiningu ýmissa hugtaka í þingsályktunartillögunni, en að henni standa framsóknarþingmennirnir Líneik Anna Sævarsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Willum Þór Þórsson og Þórunn Egilsdóttir.

„Merking hugtaka eins og „atvinnuþróun“,„gjaldeyrisskapandi“, „atvinnuskapandi“, „nýnæmi“ og „framsækinna“ er ekki skilgreind og eftir því mögulega of víðtæk,“ segir Ásgeir um tillögu þingmannanna sem bendir jafnframt á að með „nægum ríkisstyrkjum gæti t.d. öll framleiðsla vöru og þjónustu talist „gjaldeyris- og atvinnuskapandi.“

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hafa stjórnvöld boðað til víðtækra efnahagsaðgerða vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins sem fela meðal annars í sér svokallaða viðspyrnustyrki , upp á 17,5 milljarða króna til fyrirtækja sem taki við þegar tekjufallsstyrkirnir renna út.

Vankantarnir sex sem Seðlabankinn nefnir snúa að áhrifum styrkjanna á ríkissjóð, mögulegum umboðsvanda, samkeppnisreglur EES svæðisins, núverandi aðgerðir til að efla nýsköpun, umfang styrkjanna og skilgreiningarskorti ýmissa hugtaka.

Vankantarnir sex eru sem hér segir:

  • 1. Engar forsendur eru til þess að fullyrða að áhrifin á ríkissjóð af þeim aðgerðum sem lagðar eru til verði jákvæð eins og gert er í ályktuninni.
  • 2. Greiningu skortir á mögulegum umboðsvanda er hlotist gæti af því að eftirlit með viðkomandi lánum hvíli á lánafyrirtækjum en áhættan liggi hjá ríkissjóði, enda verður ekki annað séð en að stuðningsaðgerðir af þessu tagi horf í til lengri tíma en þær stuðningsaðgerðir sem gripið hefur verið til hingað til vegna farsóttarinnar.
  • 3. Ekki eru færð sannfærandi rök fyrir því að víðtæk niðurgreiðsla lánsfjár til atvinnufyrirtækja af því tagi sem lögð er til samræmist samkeppnisreglum sem gilda á EES-svæðinu.
  • 4. Óljóst er hvers vegna stofnanir og styrkjakerfi sem þegar eru til staðar duga ekki til þess að efla nýsköpun, ásamt núverandi fyrirkomulag ríkisábyrgða á brúarlánum til fyrirtækja sem lent hafa í vanda vegna COVID-19-farsóttarinnar.
  • 5. Afar óvíst er hvert umfang boðaðra styrkja til atvinnulífsins gæti orðið, enda er í tillögunni aðeins kveðið á um nauðsynlegt lágmark en ekki hámark.
  • 6. Merking hugtaka eins og „atvinnuþróun“ „gjaldeyrisskapandi“, „atvinnuskapandi“, „nýnæmi“ og „framsækinna“ er ekki skilgreind og eftir því mögulega of víðtæk. Með nægum ríkisstyrkjum gæti t.d. öll framleiðsla vöru og þjónustu talist „gjaldeyris- og atvinnuskapandi“. Ógerlegt er að taka afstöðu til tillögunnar nema þessi hugtök séu betur skilgreind og þar með skýrara að hverju skuli stefnt og hvernig.