Ásgeir Kröyer hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fjármála hjá PayAnalytics. Áður starfaði Ásgeir sem sérfræðingur í fyrirtækjaráðgjöf Fossa Markaða í Svíþjóð og þar á undan í fyrirtækjaráðgjöf Arion banka. Greint er frá ráðningu hans í fréttatilkynningu.

Ásgeir er með bakgrunn í tækni og fjármálum en reynsla hans spannar yfir 10 ár í tæknigeiranum og 13 ár í fjármálageiranum. Hann er með B.Sc. próf í tölvunarfræði og M.Sc. próf í fjármálum fyrirtækja frá Háskóla Íslands.

Ásgeir Kröyer:

„Það er frábært að ganga til liðs við reynslumikið teymi PayAnalytics. Fyrirtækið hefur náð ótrúlegum árangri á skömmum tíma og verkefnið framundan er að tryggja áframhaldandi vöxt á heimsvísu.”

PayAnalytics hugbúnaðurinn gerir fyrirtækjum kleift að mæla og loka launabili. Í því felast skýrslur og greiningar sem varpa ljósi á stöðu fyrirtækja í launamálum ásamt tillögum að launabreytingum. Þá viðheldur lausnin heilbrigðum launastrúktúr með því að styðja við allar launaákvarðanir sem er m.a. forsenda jafnlaunavottunar. PayAnalytics lauk 450 milljóna króna fjármögnunarumferð í lok síðasta árs .

Sigurjón Pálsson framkvæmdastjóri PayAnalytics:

„Ásgeir kemur með 13 ára reynslu af fjármálamarkaði og 8 ára reynslu sem stjórnandi hjá Maritech í Kanada þar á undan. Þetta er einstök blanda sem mun skipta PayAnalytics miklu máli í hröðum vexti fyrirtækisins. Breytingar á lögum um heim allan ásamt breyttu hugarfari starfsfólks og stjórnenda gerir það að verkum að eftirspurn eftir lausninni okkar eykst stöðugt. Til þess að bregðast við þessari auknu eftirspurn þurfum við að fjölga starfsmönnum á öllum sviðum, þar með talið í sölu, markaðsmálum og þróun.“

PayAnalytics er með starfsstöðvar í Grósku ásamt skrifstofum í þremur löndum utan Íslands. Hugbúnaðurinn er notaður í 43 löndum í 6 heimsálfum og er notaður til að greina launakjör hjá um 30% af þeim sem starfa á íslenskum vinnumarkaði.