Ásgeir Baldurs, fyrrum forstjóri VÍS, mun taka við af Markúsi Herði Árnasyni sem framkvæmdastjóri fjárfestinga hjá TM. Markús Hörður óskaði eftir að láta af störfum og mun hætta hjá tryggingafélaginu á næstu vikum, að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Markús hefur starfað hjá TM frá árinu 2008, fyrst sem sérfræðingur á sviði fjárfestinga og síðar forstöðumaður fjárfestinga. Á síðasta ári tók hann við stöðu framkvæmdastjóra fjárfestinga.

Eftirmaður hans, Ásgeir Baldurs, var forstjóri VÍS á árunum 2006 og 2007. Síðustu ár hefur hann starfað hjá Kviku og dótturfélögum, þar á meðal sem forstöðumaður í fyrirtækjaráðgjöf, forstöðumaður sérhæfðra fjárfestinga og fjárfestingastjóri. Ásgeir mun hefja störf hjá TM á næstu dögum.

Sigurður Viðarsson, forstjóri TM:

„Ég vil þakka Markúsi hans dýrmæta framlag til TM á þeim þrettán árum sem hann hefur starfað hjá félaginu. Á þessum tíma hefur ávöxtun fjáreigna TM verið framúrskarandi. Ég óska Markúsi alls hins besta á nýjum vettvangi.

Um leið og ég kveð Markús býð ég Ásgeir velkominn í öflugt lið starfsmanna TM.“

© vb.is (vb.is)

Ásgeir Baldurs, nýr framkvæmdastjóri fjárfestinga hjá TM.