Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur svarað ásökunum Árna H. Kristjánssonar um ritstuld við ritun Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna en málið prýddi forsíðu Fréttablaðsins í dag. Ásgeir segist hafa komið að verkefninu eftir að það hafði þegar staðið yfir í tvö ár, einungis unnið við skýrsluna í 1-2 mánuði og ekki haft frekari afskipti af henni.

Jafnframt hafi honum verið gert það ljóst að hann ætti engan höfundarrétt að efninu og minnir að hann hafi verið látinn skrifa undir yfirlýsingu um að allt efnið sem hann myndi láta af sér yrði í eign Alþingis.

„Ég átti því alls enga aðild að deilum á milli nefndarinnar og einstakra höfunda né heldur deilum um höfundarrétt sem hófust eftir útkomu skýrslunnar,“ skrifar Ásgeir í færslu á Facebook.

Ásgeir var einn þeirra sem var fenginn til að vinna verkefni fyrir Rannsóknarnefnd Alþingis árið 2013 á falli sparisjóðanna.

„Aldrei í mínum villtustu ímyndunum hvarflaði að mér að þessi skrif í umboði og undir höfundarétti Alþingis okkar Íslendinga myndu leiða til þess að ég yrði sakaður um ritstuld á forsíðu dagblaðs - 8 árum síðar. Enda er þá þjófsnautur minn í þessu máli öll íslenska þjóðin,“ skrifar Ásgeir. „Já - eins og Rómverjar sögðu að fornu: O tempora o mores.“

Seðlabankastjóri birtir mynd af sér og hundinum Balto í Esjuhlíðum með færslunni. „Ég vona að þessi myndbirting verði ekki til þess að hann liggi  undir ámæli fyrir að vera þjófsnautur.“

Sjá einnig: „Þjófkenndur í fyrsta skipti á ævinni“

Ásakanir Árna á hendur höfunda skýrslunnar voru settar í samhengi við deilur Ásgeirs við Bergsvein Birgisson, höfund bókarinnar Leitin að svarta víkingnum , en sá síðarnefndi sakaði seðlabankastjóra um „umfangsmikinn ritstuld“ í bókinni Eyjan hans Ingólfs .

Fyrsta prentun bókar Ásgeirs er uppseld hjá útgefandanum Almenna bókafélaginu, að því er Vísir greindi frá í dag. Von er á annarri prentun strax eftir helgi.