*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 22. maí 2021 14:05

Ásgeir sýnir klærnar

Seðlabankinn hækkaði stýrivexti í fyrsta sinn í embættistíð nýs seðlabankastjóra á miðvikudag.

Júlíus Þór Halldórsson
Peningastefnunefnd, sem Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri veitir formennsku, ákvað í fyrsta sinn í hans embættistíð að hækka stýrivexti nú á miðvikudag.
Gígja Einarsdóttir

Stýrivextir voru hækkaðir á miðvikudag í fyrsta sinn síðan í nóvember 2018, og í fyrsta sinn í embættistíð núverandi seðlabankastjóra, Ásgeirs Jónssonar.

Efnahagshorfur fara nú batnandi eftir niðursveiflu og kreppu frá því hann tók við sumarið 2019, og innlend eftirspurn er orðin nokkuð sterk. Verðbólga hefur ekki mælst jafn há í 8 ár, og verðbólguþrýstingur er í yfirlýsingu peningastefnunefndar vegna hækkunarinnar sagður virðast almennur.

Í yfirlýsingunni eru ástæður og rök hækkunarinnar tíunduð nánar: Þrálátari verðbólga en búist var við, samhliða hraðari viðspyrnu efnahagslífsins og innlendrar eftirspurnar en á hafði horfst, eru sagðar helstu ástæður.

Þrátt fyrir hækkunina eru stýrivextir afar lágir í sögulegu samhengi, og ljóst að ekki felst mikið aðhald í stöðunni eins og hún er núna. Raunstýrivextir hafa verið neikvæðir síðan faraldurinn skall á í mars í fyrra, og Seðlabankanum reiknast til að eftir lækkunina séu þeir neikvæðir um 2,8%, sem er 2,2 prósentustigum lægra en fyrir ári síðan.

Slakinn hverfi ári fyrr
Í Peningamálum, sem gefin voru út á miðvikudag samhliða vaxtaákvörðuninni, er sleginn svipaður tónn um nokkuð þróttmikla viðspyrnu eftir því sem bólusetningu miðar áfram og hagkerfið stefnir í eðlilegra horf.

Bent er á að atvinnuleysi hafi farið minnkandi eftir að hafa náð hámarki í janúar, og því spáð að sú þróun haldi áfram. Sá framleiðsluslaki sem faraldurinn hafi haft í för með sér sé nú metinn minni en í febrúarspánni, og útlit er sagt fyrir að hann hverfi seint á næsta ári, sem er um ári fyrr en gert var ráð fyrir í febrúar. Þó er gert ráð fyrir að atvinnuleysi verði 7,8% að meðaltali á næsta ári, og 6,1% á því þarnæsta, en það er nokkur lækkun frá febrúarspánni.

Bjóst við hækkun eftir leiðréttingu Þjóðskrár
Gunnar Bjarni Viðarsson, sérfræðingur í greiningardeild Arion banka, segir vaxtahækkunina ekki hafa komið á óvart. „Sérstaklega eftir nýjustu tölur frá Þjóðskrá,“ segir hann og vísar í leiðréttingu Þjóðskrár á meinlegri villu við útreikning íbúðaverðsvísitölu á mánudag, sem hækkaði um 3,3% í mars en ekki 1,6% eins og upphaflega var gefið út. „Ég var að vinna að verðbólguspá á þessum tíma og þetta leiddi til talsverðrar hækkunar á henni.“

Eftir það hafi hann gert ráð fyrir hækkun stýrivaxta. „Ég verð að viðurkenna það að fasteignaliðurinn hreyfði við mér. Þar til það kom í ljós hafði ég verið að spá óbreyttum vöxtum.“ Hann tekur þó undir málflutning Seðlabankans um sterkan efnahagsbata.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.