Það er óhætt að segja skipun Ásgeirs Jónssonar í stöðu seðlabankastjóra í gær hafi komið einhverjum á óvart. Í lok mars þegar lá fyrir hverjir umsækjendur í starf seðlabankastjóra voru opnaði veðmálasíðan Coolbet fyrir veðmál á hver yrði skipaður í starfið og var Ásgeir ekki talinn meðal þeirra líklegustu.

Þegar stuðlarnir voru birtir í lok mars þótti Arnór Sighvatsson, fyrrverandi aðstoðarseðlabankastjóri líklegastur til að fá starfið og fékk hann stuðulinn 1,8. Katrín Ólafsdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík þótti næst líklegust en hún fékk stuðulinn 3,5 og sá þriðji líklegasti var Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta og fjárstýringar hjá Seðlabankanum, með stuðulinn 6.

Ásgeir þótti hins vegar vera sá fimmti líklegasti til að hreppa hnossið með stuðulinn 8,5. Þeir sem veðjuðu á nýjan seðlabankastjóra náðu því að ávaxta fé sitt ríkulega en ef lagðar voru undir 10.000 krónur hefðu þær skilað 85.000 krónum til baka eða 7,5 faldri ávöxtun.

Coolbet var einnig nokkuð langt frá í stuðlum með þá sem voru taldir mjög vel hæfir til gegna starfi seðlabankastjóra fyrir utan Arnór Sighvatsson. Gylfi Magnússon var með stuðulinn 12 og þótti sá níundi líklegasti og þá var Jón Daníelsson með stuðulinn 25 og þótti ekki nema 14. líklegasti.