Ásgeir Trausti og Guðmundur Kristinn vinna nú að enskri útgáfu metsöluplötunnar Dýrð í dauðaþögn sem kemur út í haust. Í framhaldi munu þeir ferðast um og kynna plötuna. Dýrð í Dauðaþögn kom út í fyrrahaust og seldist hún í tæplega 30 þúsund eintökum. Hún var sömuleiðis valin plata ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum þegar þau voru afhent í febrúar og var Ásgeir Trausti valinn bjartasta vonin.

Mikil vinna er framundan við að klára plötuna og að kynna hana. Þeir hafa líka samið ný lög. Guðmundur Kristinn, þekktur sem Kiddi í Hjálmum, segir ekki vitað hvað verði um lögin. Þau séu nú nýtt til að lengja tónleika en geti vel endað á sem aukaefni eða á nýrri plötu.