Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, segir ástæðuna fyrir því að vöxtum hafi verið haldið óbreyttum sé að fátt hafi breyst frá síðasta vaxtaákvörðunarferli, þar sem þeir voru lækkaðir.

„Það virðist allt vera að ganga eftir þeim spám sem við höfum lagt upp með,“ segir Ásgeir í myndbandi sem birtist á vef Seðlabankans í kjölfar stýrivaxtaákvörðunarinnar sem Viðskiptablaðið sagði frá fyrr í morgun .

„Á þessu ári hefur Seðlabankinn lækkað vexti um 150 punkta, eða 1,5 prósentur, og við viljum sjá hvaða áhrif sú vaxtalækkun hefur á næsta ári. Við viljum ekki taka þá áhættu að örva hagkerfið of mikið að svo stöddu, heldur líka viljum við bíða og sjá hvað gerist.“