„Ef við erum að fá gagnrýni frá vinnumarkaðnum um að við höfum gert of mikið, þá er það ósvífið, og í rauninni fáránlegt,“ sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri nú fyrir skemmstu á árlegum Peningamálafundi Viðskiptaráðs.

Ásgeir sagði allar aðgerðir Seðlabankans í gegn um faraldurinn hafa verið hugsaðar til þess að halda atvinnuleysi í skefjum og forða vinnumarkaði frá þeirri þróun og stöðu sem upp kom eftir hrun, þar sem fólk hafi dottið út af vinnumarkaði til lengri tíma. Hugsunin í þetta skiptið hafi verið sú að gera frekar meira en minna til að forða þeirri stöðu, enda hrunið enn ferskt í minni flestra.

Til samanburðar sé vinnumarkaðurinn nú að koma frábærlega undan faraldrinum, atvinnuþátttaka hafi komið hratt aftur og atvinnuleysi lækkað mikið.

0% vextir erlendis tákn um dauðann, stöðnun og aumingjaskap
Hann benti ennfremur á að stýrivextir hafi verið 4,5% þegar lífskjarasamningarnir voru gerðir – en ein af forsendum hans voru lægri vextir – og séu í dag, þrátt fyrir hækkanir síðustu mánaða, enn meira en helmingi lægri.

„Þessvegna verð ég hissa þegar það koma stórar yfirlýsingar þegar við förum úr 1,5% í 2% að himinn og jörð sé að farast og það þurfi sérstakar hækkanir í kjarasamningum til að bregðast við. Það er úr korti við íslenskan raunverulega og við almenna skynsemi.“ [...] „Það er að einhverju leyti jákvætt að við þurfum að hækka vexti. 0% vextirnir sem eru erlendis eru tákn um dauðann! þeir eru tákn um stöðnun, atvinnuleysi og aumingjaskap,“ sagði Ásgeir og var nokkuð heitt í hamsi.

Samtök atvinnulífsins samið af sér
Ásgeir sagði hagvaxtaraukaákvæði kjarasamninga koma afar illa við verðstöðugleika, enda væntur hagvöxtur ársins í ár einfaldlega viðspyrna eftir efnahagsáfallið í fyrra. Hann hafi þó skilning á því að þetta sé það sem um var samið, og verkalýðsfélögin vilji fá umsamdar kjarabætur. „Samtök Atvinnulífsins mættu hinsvegar hugsa um hvernig þau semja. Þau sömdu klárlega af sér.“

Hann sagði tíma til kominn að endurhugsa vinnumarkaðsmódelið hér á landi. „Íslendingar hafa alltaf hækkað laun meira en aðrir að nafnvirði. Að raunvirði erum við á svipuðu róli. Þetta þarf að ræða. Af hverju við teljum okkur þurfa að hækka laun um 6% eða meira á ári, alltaf.“