Áshildur Bragadóttir hefur verið valin úr hópi 39 umsækjenda til að taka við stöðu forstöðumanns Höfuðborgarstofu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Áshildur Bragadóttir er viðskiptafræðingur með MSc í Stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands. Frá árinu 2012 hefur hún gegnt stöðu framkvæmdastjóra Markaðsstofu Kópavogs.

Áður hefur hún gegnt störfum sem samskipta- og markaðsstjóri viðskipta- og hagfræðideildar Háskóla Íslands, sérfræðingur og deildarstjóri hjá Landsbankanum, markaðsstjóri nýsköpunarfyrirtækis og nú síðast á vettvangi sveitarfélags. Samhliða hefur Áshildur einnig sinnt kennslu á háskólastigi og ýmsum trúnaðar- og stjórnarstörfum.

Áshildur tekur við stjórn Höfuðborgarstofu þann 16. september nk. þegar Einar Bárðarson lætur af störfum.