Verslunarjöfurinn Mike Ashley – sem meðal annars á íþróttavörukeðjuna Sports Direct – er sagður hafa áhuga á að taka yfir og bjarga Debenhams, sem stendur nú frammi fyrir gjaldþroti og lokun.

Verslunarkeðjan Frasers, sem er í eigu Ashley, skoðar nú möguleikann á því að yfirtaka Debenhams að hluta eða öllu leyti. Í yfirlýsingu frá félaginu er staðan hinsvegar sögð erfið, og tíminn naumur.

Debenhams-keðjan, sem á sér nærri 250 ára gamla sögu, átti í viðræðum við nokkra tilvonandi kaupendur, en eftir að sá síðasti, JD Sports, sleit viðræðum í síðustu viku, hefur stefnt í það að segja þurfi upp öllu starfsfólki og selja eignir félagsins.

Eins og hjá mörgum verslunum hefur sala Debenhams – sem reiðir sig að verulegu leyti á viðskipti í raunheimum – hrunið í heimsfaraldrinum. Gjaldþrot verslunarveldis Philip Green, Arcadia , er svo sagt hafa gert útslagið, en fyrirtæki Arcadia ráku fjölda sölubása innan verslana Debenhams.

Ashley bauð Green neyðarlán til að halda Arcadia á floti, en Green neitaði því, og í kjölfar þess að Arcadia fór í greiðslustöðvun og eignir þess voru settar á sölu hefur Ashley einnig verið að skoða hugsanleg kaup einhverra þeirra.