Málshöfðun ASÍ gegn ríkinu vegna sérstakrar skattlagningar á líferissjóðina er tilbúin og verður stefna þingfest á allra næstu dögum, samkvæmt upplýsingum Magnúsar M. Norðdahl, deildarstjóra lögfræðideildar ASÍ. „Alþýðusamband Íslands höfðar málið á grundvelli sérstakra ákvæða í einkamálalögunum til að gæta hagsmuna allra félagsmanna sinna, sem jafnframt eru sjóðsfélagar í lífeyrissjóðunum á almennum vinnumarkaði,“ segir hann í fréttaskýringu um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.

Miðstjórn ASÍ, sem ákvað að láta reyna á lögmæti eignarskattsins og krefjast þess að hann verði greiddur til baka, hefur haldið því fram að álagning skattsins brjóti gróflega gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Tekjur af skattinum í fyrra voru um 1.649 milljónir. Ríkið bauð þau málalok fyrir áramót að síðari greiðsla sjóðanna sem átti að innheimta á þessu ári yrði felld brott.

Forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa á hinn bóginn staðfastlega haldið því fram að lagaleg skylda lífeyrissjóðanna til að taka þátt í að fjármagna útgjöld vegna tímabundinnar hækkunar á vaxtabótum á árunum 2011 og 2012 sé hafin yfir allan vafa. Var gripið til þess ráðs að leggja sérstakt tímabundið gjald á sjóðina sem nam 0,08145 af hreinni eign til greiðslu lífeyris.