Það ræðst á mánudag hvort Alþýðusamband Íslands muni óska eftir því að endurskoðun kjarasamninga á vinnumarkaði verði frestað fram í júní. Forysta ASÍ lýsti því yfir í lok janúar að hún vildi fara þessa leið en jafnframt var því beint til formanna aðildarfélaga að þeir könnuðu hug félagsmanna sinna til málsins.

Formannafundur fer fram nú á mánudag þar sem úr þessu fæst skorið. Verði samþykkt að fresta endurskoðun samninganna mun forysta ASÍ ræða framhaldið við Samtök atvinnulífsins.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að rökin fyrir frestuninni séu einföld. Í fyrsta lagi sé ljóst að atvinnulífið hafi óskað eftir breytingum á kjarasamningunum og þá  sérstaklega að launahækkunum verði frestað. Í öðru lagi sé ekki hægt að binda kjarasamninga til loka næsta árs í ljósi þess að kosningar verði í lok apríl.

„Þess vegna er skynsamlegt að fresta endurskoðuninni til loka júní  því þá er komin ný ríkisstjórn og við getum rætt við hana um það hvernig samstarfið um þessi mál verða næstu misserin," segir hann í samtali við Viðskiptablaðið.

Samkvæmt samningum ASÍ og SA eiga næstu launahækkanir að taka gildi 1. mars. Vegna endurskoðunarákvæðis samninganna geta báðir aðilar hins vegar sagt upp samningum. Einstakar raddir eru uppi um það meðal atvinnurekenda að sú leið verði farin og þar með þyrfti að semja upp á nýtt.

Samningaviðræður gætu hins vegar orðið erfiðar í því árferði sem nú ríkir og því hugnast forystu ASÍ betur sú leið að fresta endurskoðun fram á sumar.