Miðstjórn ASÍ lýsir furðu og hneykslan sinni á því hvernig mál gengu fyrir sig í aðdraganda að falli bankanna.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu ASÍ sem birt er á heimasíðu samtakanna en á miðstjórnarfundi Alþýðusambands Íslands í dag var fjallað um kaupréttarsamninga æðstu stjórnenda í bönkum og öðrum fjármálastofnunum.

„Alþýðusambandið hefur í mörg ár gagnrýnt fyrirkomulag kaupréttarsamninga og leggur ASÍ þunga áherslu á að þessi mál sem upp hafa komið síðustu daga verði rannsökuð ofan í kjölinn og hið sanna dregið fram í dagsljósið,“ segir í yfirlýsingunni.

„Allt annað eykur aðeins á þá þungu reiðiöldu sem kraumar nú í samfélaginu og er ekki á bætandi.“

Þá kemur fram að ASÍ lítur á það sem sitt hlutverk að ganga eftir því að fram fari vandað og fordómalaust uppgjör á því hvers vegna þjóðin er komin í þessa stöðu.

„Gera þarf upp allar hliðar þessa máls,“ segir í yfirlýsingunni.

„Hlutverk fjármálastofnana, ríkisstjórna, Seðlabankans og allra annarra megingerenda í atburðarásinni. Lagt er til að fengnir verði óháðir sérfræðingar í þetta verkefni, bæði innlendir og erlendir.“

Í yfirlýsingunni kemur einnig fram að ASÍ telur að herða þurfi regluverk banka og fjármálafyrirtækja gagnvart ráðgjöf til einstaklinga, auka eftirlit og heimildir eftirlitsaðila.

„Byggja þarf upp traust á Seðlabanka Íslands og stjórn hans. Í því sambandi er mikilvægt að tryggja fagmennsku í stjórn bankans og taka verður til gagngerar endurskoðunar hvernig staðið er að ráðningu bankastjóra,“ segir í yfirlýsingu miðstjórnar.