Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur Alþýðusambandsins, segir að 1. janúar sé ekki góður tími til að fella niður tolla vegna þess að þá bresti á útsölur og verð sé almennt að lækka. Þá geti verið erfitt að átta sig á verðlækkunum vegna tollabreytinga. Þetta kemur fram í samtali hans við RÚV um fyrirhugað afnám tolla á fatnaði og skóm.

„Ég helda að það megi segja að versti tíminn til að gera svona kerfisbreytingar sé um áramót. Þá getum við búist við því að það séu janúarútsölur og verðlag almennt að lækka. Síðan í febrúar hækkar verð aftur þannig að hættan er sú að kerfisbreytingin drukkni í útsöluáhrifunum. Ég myndi segja að ef það er vilji manna að þetta skili sér til neytenda að þá ættu menn að velja einhvern annan tíma. 1. mars eða þar um bil," segir Ólafur Darri.

Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2016 er gert ráð fyrir afnámi tolla í áföngum, fyrst með afnámi tolla af fötum og skóm um næstu áramót og af öðrum vörum en matvörum um áramót þar á eftir.