„Þetta er mikið áhyggjuefni. Það verður mjög erfitt að fjármagna framtíðarvöxt og endurreisa hagkerfið ef þetta verður svona lengi.“

Þetta segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ í samtali við Viðskiptablaðið aðspurður um framlengingu gjaldeyrishafta Seðlabankans.

Seðlabankinn tilkynnti í morgun að bankinn hefði ákveðið að afnema ekki gjaldeyrishöft þar sem nauðsynlegt skilyrði til þess væru ekki enn til staðar að mati bankans.

Næsta endurskoðun á reglum um gjaldeyrismál mun eiga sér þann 1. september n.k.

Gylfi segir þetta mjög slæm tíðindi fyrir hagkerfið hér á landi. Hann segir að erlendir bankar muni nú forðast það að koma með fjármagns til landsins og því verði erfitt að fjármagna vöxt hér á landi.

„Hagvöxtur verður ekki til nema hann sé fjármagnaður,“ segir Gylfi og bætir við:

„Úr því að þetta varð niðurstaðan, af hverju í ósköpunum eru stýrivextir þá ekki strax keyrðir niður?“

Gylfi segir nauðsynlegt að Seðlabankinn keyri niður stýrivexti sem fyrst. Ljós sé að stýrivextir hafi nú lítil sem engin áhrif á fjármagnsflutningar þar sem þeir séu ekki leyfðir.

Þá segir hann ljóst að verðbólgan muni hríðlækka á næstunni og því sé einnig nauðsynlegt að lækka stýrivexti sem allra fyrst.