Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að viljaleysi atvinnurekenda til að ganga frá kjaraviðræðum þvingi Alþýðusamband Íslands til að grípa til verkfallsvopnsins. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV . Kjaraviðræðum hafa staðið yfir frá því í nóvember, án árangurs.

Kjaraviðræður Samtaka atvinnulífsins og ASÍ sigldu í strand fyrir um tveimur vikum. Fulltrúar SA hafa í viðræðunum krafist þess að lausn fáist í sjávarútvegsmálum áður en samningar verða gerðir. Forystumenn launþega hafa sakað fulltrúa atvinnurekenda um að taka kjarasamninga í gíslingu með kröfum sínum. Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, sagðist í gær vera orðinn langþreyttur á því að vera hafður að ginningarfífli LÍU og SA. Gylfi tók undir orð hans í samtali við fréttastofu RÚV í dag.

Gylfi sagði ennfremur að ASÍ sé farið að huga að aðgerðum, enda sé samningaleiðin nánast fullreynd. Það gefi augaleið að eina leiðin fyrir ASÍ til að rjúfa kyrrstöðu sé að kalla til félagsmenn og fara að ýta á samninga með aðgerðum. Aðspurður hvort hann eigi við verkföll sagði hann að því miður sé það svo.