Alþýðusamband Íslands (ASÍ) hefur hvatt landsmenn og fjárfesta til að sniðganga flugfélagið Play. Sambandið segir Play ætla að borga lægri laun en þekkist á íslenskum vinnumarkaði og að þau séu lægri en atvinnuleysisbætur. Þetta kemur fram í tilkynningu á vefsíðu ASÍ.

ASÍ segist erfitt með að átta sig á því hvernig samningur Play sé kominn á borð ríkissáttasemjara og telur að þeir hljóti að stangast á við lög. Þá er einnig sagt að samningar hljóti að hafa verið gerðir áður en ráðist var til ráðninga á flugfreyjum- og þjónum og að Play fjármagni stéttarfélagið sem að gerir samninginn, ÍFF.

Sambandið furðar sig einnig á því af hverju kjarasamningar voru ekki gerðir við Flugfreyjufélag Íslands. „Með því að neita að gera kjarasamning við Flugfreyjufélag Íslands segir félagið sig úr samfélagi hins skipulagða vinnumarkaðar," segir í tilkynningunni.

Í tilkynningunni er sagt að lægstu laun Play séu 266.500 krónur og að það sé um 40.000 krónum lægra en lægstu laun hjá Icelandair. Þá er einnig sagt að flugtímar séu fleiri hjá Play, yfirvinnutímar færri og lífeyrissjóðsgreiðslur minni. Þá segir ASÍ að mörg kjör og réttindi séu virt að vettugi.