Þó að markmið sjávarútvegsfrumvarpanna falli ágætlega að stefnu ASÍ í atvinnumálum þá er ýmislegt sem sambandið telur að færa þurfi til betri vegar í frumvörpunum áður en þau verða að lögum.

Þetta kemur fram í umsögn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) um þau frumvörp um breytingar á lögum um fiskveiðistjórnun sem lögð hafa verið fram á Alþingi.

ASÍ segir að helstu veikleikar frumvarpanna vera að verið sé að veikja rekstargrunn greinarinnar, þ.e. sjávarútvegsins.

„Sérstaklega þarf að hafa þetta í huga þegar horft er til þess að einnig er verið að leggja til að greinin greiði hluta af umframhagnaði til ríkisins í formi sérstaks veiðigjalds,“ segir á vef ASÍ þar sem umsögnin er birt.

„ASÍ telur mikilvægt að lög um stjórn fiskveiða séu ávallt þannig úr garði gerð að þau stuðli að því að sjávarútvegurinn geti verið arðsöm atvinnugrein og búi við stöðugt rekstarumhverfi þannig að greinin geti gegnt mikilvægu samfélagslegu hlutverki sínu í atvinnuháttum á landsbyggðinni.“

Vegna þess hve frumvörpin um stjórn fiskveiða og veiðigjöld eru nátengd sendir Alþýðusamband Íslands sameiginlega umsögn um bæði frumvörpin.

„ASÍ telur að verði tekið tillit til tillagna sambandsins um breytingar á frumvörpunum geti þau orðið grunnur að góðri sátt um sjávarútveginn og er afstaða ASÍ til þessara frumvarpa háð fyrirvara um framgang þessara tillagna", segir m.a. í umsögn ASÍ.

Sjá nánar á vef ASÍ.