Alþýðusamband Íslands lýsir áhyggjum af umfangi skattahækkana á næsta ári og líklegum áhrifum þess á eftirspurn og atvinnustig í landinu. Þó ber að fagna því að stjórnvöld hafa komið til móts við gagnrýni ASÍ og dregið úr áformuðum skattahækkunum í fjárlögum um þriðjung eða 23-24 miljarða króna.

Þetta kemur fram á vef ASÍ í dag.

Þar segir að við gerð stöðugleikasáttmálans í sumar hafi náðst samkomulag milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda um megináherslur í ríkisfjármálum í ljósi þeirrar erfiðu stöðu sem við blasir. Áhersla hafi verið lögð á að verja viðkvæma þætti velferðar- og heilbrigðiskerfisins eins og kostur er, en ná aðhaldi ríkisfjármála á næstu 3-4 árum með blandaðri leið sparnaðar í rekstri og skattahækkunum. Einnig var lögð áhersla á að við útfærslu skattahækkana yrði sanngirni og réttlæti höfð að leiðarljósi, þar sem staðið yrði vörð um lægstu tekjur og lægri meðaltekjur.

„Það er mat ASÍ, að þegar á heildina er litið hafi ríkisstjórnin við útfærslu beinna skattahækkana staðið við þessi markmið,“ segir á vef ASÍ.

„ASÍ hefur lengið talað fyrir því að tekið verði upp þrepaskipt skattkerfi með lægri skatthlutföll á lægstu tekjur.Þó Alþýðusambandið hefðu viljað ganga lengra í þessa átt er niðurstaðan í þessari lotu ásættanleg.

Sjá nánar á vef ASÍ.