*

fimmtudagur, 28. október 2021
Innlent 21. apríl 2021 10:12

ASÍ með lífeyriskerfið í gíslingu

Framkvæmdastjóri Frjálsa telur mikilvægt að Alþingi hafni ákvæðum frumvarpsins um lögfestingu tilgreindar séreignar.

Ritstjórn
Arnaldur Lofsson, framkvæmdastjóri Frjálsa lífeyrissjóðsins.
Aðsend mynd

Arnaldur Loftsson, framkvæmdastjóri Frjálsa lífeyrissjóðsins, segir að flestir hinna 14 lífeyrissjóða og vörsluaðila séreignarsparnaðar séu mótfallnir lögfestingu tilgreindrar séreignar og kysu að sjóðfélagar þeirra gætu ráðstafað 3,5% iðgjaldinu í viðbótarsparnað, sem ekki sé leyfilegt samkvæmt frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra. „Svo virðist sem ASÍ sé með lífeyriskerfið í algjörri gíslingu og stjórnvöld fái ekki neitt við ráðið,“ skrifar hann í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. 

„Í raun er umhugsunarvert að ASÍ berjist fyrir breytingum sem skerða frelsi launafólks til að ákveða fyrirkomulag á úttekt sparnaðar síns, auk þess að beita sér fyrir því að þvinga fram neikvæðar breytingar á uppbyggingu lífeyrissparnaðar hjá lífeyrissjóðum sem ekki eru á forræði þeirra.“

Arnaldur segir að vald Alþýðusambands Íslands (ASÍ), sem hafi beitt sér fyrir frumvarpinu, veki furðu í ljósi þess að aðeins sjö af 21 lífeyrissjóði eru á samningssviði ASÍ og SA og bæði eignir og árleg iðgjöld þessara sjö sjóða standa undir minna en helmingi af eignum og árlegum iðgjöldum allra lífeyrissjóða.

Aukið flækjustig, dýrara lífeyriskerfi og skerðing á valfrelsi sjóðfélaga

Hann telur mikilvægt að Alþingi beri gæfu til að hafna ákvæðum frumvarpsins um lögfestingu tilgreindrar séreignar en það sé „lífeyriskerfinu og öllu launafólki til heilla og hagsbóta“. Arnaldur segir að bent hafi verið á í umsögnum um frumvarpsdrögin að með nýju lagaákvæðunum fylgdi aukið flækjustig, dýrara lífeyriskerfi og skerðing á valfrelsi sjóðfélaga. Aukið flækjustig minnki áhugi fólks á lífeyrissparnaði. 

Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði 15,5% lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs, í stað 12%. Einnig yrði sjóðfélögum heimilt að ráðstafa mótframlagi launagreiðanda, allt að 3,5%, í tilgreinda séreign sem við útgreiðslu skerðir ekki ellilífeyri almannatrygginga. Arnaldur segir að samhliða þessu verði gerðar breytingar á útgreiðslum annarra tegunda séreignar en viðbótarlífeyrissparnaði, sem muni skerða ellilífeyrinn. Að öllum líkindum leiði þetta til þess að stærsti hluti sjóðfélaga lífeyrissjóða ráðstafi 3,5% iðgjaldinu í tilgreinda séreign.

„Slík breyting raskar fyrirkomulagi lífeyrisréttinda hjá tugum þúsunda sjóðfélaga, sem í dag ráðstafa 3,5% af iðgjaldinu í frjálsa séreign,“ segir Arnaldur. 

Hann telur að ráðstöfun 3,5% iðgjalds til viðbótarsparnaðar, sem er ekki leyfð samkvæmt frumvarpinu, í stað tilgreindar séreignar væri betri fyrir sjóðfélaga þar sem þrengri útborgunarreglur gilda fyrir tilgreinda séreign. Tilgreind séreign er ekki laus fyrr en frá 62 ára aldri sjóðfélaga og laus til útborgunar á að lágmarki fimm árum samkvæmt frumvarpinu. Viðbótarsparnaður og frjáls séreign er aftur á móti laus frá 60 ára aldri og laus til útgreiðslu samkvæmt óskum sjóðfélaga.

Arnaldur segir að stjórnvöldum og ASÍ hafi margoft verið bent á að fyrir sjóðfélaga er mun hagstæðara að ráðstafa 3,5% iðgjaldi í viðbótarsparnað með rýmri útborgunarreglum af því að aðstæður fólks séu mismunandi.