Hægt hefur á efnahagsbatanum og nú bendir flest til þess að hagvöxtur í ár verði rétt undir 2%, að mati Hagdeildar ASÍ, sem hefur gefið út endurskoðaða hagspá fyrir árin 2013-2015.

Er þetta nokkuð minni hagvöxtur en hagdeildin spáði í október. Samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofunni þá var hagvöxturinn í fyrra undir væntingum eða 1,6%. Breytinguna má að mestu rekja til minni samneysluútgjalda og minni útflutnings en gert var ráð fyrir í október.

Hagdeildin segir að efnahagslífið haldi þó áfram að reisa sig og gangi spá hennar eftir verður hagvöxtur rétt um 3% árin 2014 og 2015. Búast megi við að gengi krónunnar verði áfram veikt en styrkist þó lítillega eða um 2,5% á spátímanum. Spáð er batnandi stöðu á vinnumarkaði á næstu árum í takt við efnahagslífið og því að heimilin haldi áfram að rétta úr kútnum. Verðbólga verði mikil í ár en minnki þegar líður á spátímann.

Spáin byggir á sömu forsendum og spá hagdeildar frá því í október sl. fyrir utan að nú er gert ráð fyrir að framkvæmdir við byggingu kísilvers á Bakka hefjist á næsta ári. Áfram er gert ráð fyrir að framkvæmdir við álverið í Helguvík ásamt tengdum orkuframkvæmdum fari á fullt skrið á árinu, ráðist verði í endurbætur á álverinu á Grundartanga og byggingu nýs fangelsis á Hólmsheiði. Auk þess er gert ráð fyrir byggingu nýs spítala og framkvæmdum við Vaðlaheiðargöng. Nokkur seinkun hefur orðið á framkvæmdum við álverið í Straumsvík en áfram er gert ráð fyrir að framleiðsla hefjist í endurbættri verksmiðju á undir lok næsta árs.

Tekið er fram í spánni að hún sé háð töluverði óvissu um þróun efnahagsmála, bæði hérlendis og á alþjóðavísu. Gangi forsendur um fjárfestingar ekki eftir mun hagvöxtur verða umtalsvert minni en hér er gert ráð fyrir.