Alþýðusamband Íslands hefur sent frá sér tilkynningu þar sem segir að engar forsendur séu lengur fyrir aðild ASÍ að stöðugleikasáttmála á milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Yfirlýsingin kemur nú þegar ljóst er að frumvarp um lögbindingu á greiðsluskyldu atvinnurekenda og lífeyrissjóða til starfsendurhæfingar verður ekki afgreitt á yfirstandandi þingi. „Þar með hafa stjórnvöld enn á ný svikið þau loforð sem gefin hafa verið.  Með þessari framgöngu eru stjórnvöld og Alþingi beinlínis að koma í veg fyrir að stórir hópar fólks á almennum vinnumarkaði og öryrkjar hjá lífeyrissjóðunum njóti réttar til starfsendurhæfingar.

Miðstjórn ASÍ gagnrýnir ríkisstjórnina harðlega fyrir að standa ekki við fyrirheit í stöðugleikasáttmálanum. Það er engin launung að væntingar miðstjórnar ASÍ til lögbindingar þessara ákvæða var síðasta hálmstráið sem rökstuddi aðild ASÍ að þessum svokallaða sáttmála, þrátt fyrir aðgerða- og úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar í efnahags- og atvinnumálum. Nú er ljóst að sú von er að engu orðin og lýsir miðstjórn ASÍ því formlega yfir að engar forsendur eru fyrir aðkomu þess að frekari samstarfi á þeim grunni.“