Grétar Þorsteinsson, forseti Alþýðusambands Íslands, sagði í 1. maí ræðu sinni á Sauðárkróki í dag að EES-samningurinn hefði á undanförnum 15 árum veitt okkur mikla réttarbót. Verulega væri þó tekið að fjara undan þeim samningi. "Stjórnmálamenn verða því að hleypa í sig kjarki til að ræða næstu skref í Evrópumálum," sagði hann.

Grétar gerði hugmyndir Samtaka atvinnulífsins um evruvæðingu atvinnulífsins því næst að umtalsefni. "Viðsemjendur okkar hjá Samtökum atvinnulífsins vilja mæta auknum óstöðugleika í efnahagslífinu með einhliða evruvæðingu atvinnulífsins," sagði hann. "Verði það að veruleika munu sumir okkar félaga eiga kost á evrulaunum og evrulánum og versla vörur og þjónustu í evrum, en aðrir verði að búa við laun í óstöðugri krónu með háum vöxtum."

Forseti ASÍ sagði ljóst að slík þróun myndi fela í sér óþolandi mismunun gagnvart almenningi í landinu og bætti því við að hún hefði í nýrri bók: Hvað með Evruna? eftir Eirík Bergmann Einarsson og Jón Þór Sturluson verið talin versta mögulega leiðin við evruvæðingu Íslands.

Þjóðin sjálf eigi síðasta orðið

Grétar sagði einnig í ræðu sinni að tilraun okkar með sjálfstæða peningamálastefnu, sem hófst í mars 2001, hefði ekki tekist. "Sveiflur í gengi krónunnar eru svo miklar að þær einar og sér eru að valda hér alvarlegum efnahagsvanda," sagði hann.

Íslendingar stæðu því að mörgu leyti á krossgötum og yrðu að leita nýrra leiða til að treysta hér raunverulegan jöfnuð og jafnvægi fyrir bæði heimilin og fyrirtækin í landinu.

"Ég er þeirrar skoðunar að þetta mál sé það stórt og afdrifaríkt fyrir framtíð þjóðarinnar að Íslendingar eiga það hreinlega skilið að stjórnamálamenn setji það á dagskrá og ræði fordómalaust. Fólkið í landinu á rétt á því. Það er síðan þjóðin sjálf sem á að hafa síðasta orðið í þessu máli."

Ræðu Grétars má sjá í heild hér .