Hagdeild Alþýðusambands Íslands (ASÍ) spáir því að hagvöxtur verði 1,7% á þessu ári, 2,2% á næsta ári og 2,5% árið 2015. Helstu drifkraftar hagvaxtar eru áframhaldandi vöxtur útflutnings ásamt hóflegum vexti í einkaneyslu og fjárfestingum. ASÍ býst við því að fjárfesting dragist saman á þessu ári en vaxi síðan á næstu tveimur árum. Hagvaxtarspáin er nokkuð dekkri en sú sem Seðlabankinn kynnti á dögunum. Í Peningamálum bankans sem komu út í ágúst er horfur sagðar á 2% hagvexti á þessu ári en 3% hagvexti næstu tvö ár ár eftir.

ASÍ kynnti hagspá sína og horfur í efnahagsmálum fyrir stundu.

Í hagspá ASÍ segir að helstu breytingar frá síðustu spá hagdeildarinnar frá í júní séu þær að útlit sé fyrir töluvert minni fjárfestingu á spátímanum en gert er ráð fyrir að þær dragist saman um 8,8% á þessu ári en fari í 14,1% á næsta ári. Þróunin skýrist öðru fremur af minni fjárfestingu atvinnuveganna en ekki ert gert ráð fyrir því að uppbygging álvers í Helguvík hefjist á spátímanum. Á móti er gert ráð fyrir því að uppbygging iðnaðarsvæði á Bakka við Húsavík hefjist á næsta ári auk tengdra fjárfestinga í orkumannvirkjum og innviðum. Því til viðbótar eru framkvæmdir við fangelsi á Hólmsheiði, Vatlaheiðargöng, Norðfjarðargöng og almennar samgöngur áætlaðar á spátímanum.

ASÍ segir jafnframt skuldastöðu heimilanna hafa batnað og dregið úr skuldavandanum. Þá muni bætt staða á vinnumarkaði og aukinn kaupmáttur leiða til eþss að einkaneysla muni aukast. ASÍ bendir jafnframt á að atvinnuleysi verði að jafnaði um 4,7% á þessu ári en ekki er búist við mikilli hjöðnun atvinnuleysis á spátímanum.