*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 24. september 2020 17:10

ASÍ telur forsendur samninga standast

ASÍ segir forsendur lífskjarasamninga hafa staðist. Von sé á frumvarpi um bann við verðtryggðum 40 ára lánum í haust.

Ritstjórn
Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Haraldur Guðjónsson

Alþýðusamband Íslands telur að forsendur lífskjarasamninga hafi staðist en undanfarna daga hafa forsendunefnd verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda fundað.

Þrjár forsendur voru lagðar fram vegna samninganna. Skilyrði um aukin kaupmátt og lækkun vaxta hafa staðist en óvissa var um hvernig afstaða verkalýðshreyfingarinnar yrði til þeirra fyrirheita sem stjórnvöld gáfu út í tengslum við samningana. Kaupmáttur launa hefur aukist um 4,8% á samningstímanum stýrivextir lækkað úr 4,5% í 1%.

ASÍ segir að tímasett loforð stjórnvalda hafi staðist utan við bann við 40 ára verðtryggðum lánum. Frumvarp sem tekur á því máli verði hins vegar lagt fram á komandi haustþingi og því telur ASÍ að framlagning þess á næstu vikum feli í sér efndir á þeim lið yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar.

„Verkalýðshreyfingin hefur boðið frið á vinnumarkaði og fyrirsjáanleika. Með því sýnum við ábyrgð á erfiðum tímum. Eitt vafaatriði stóð út af það er verðtryggingamálin, en við höfum fullvissu fyrir því að frumvarp verði lagt fram á haustþingi. Því teljum við ekki tilefni til að lýsa yfir forsendubresti vegna þess,“ er haft eftir Drífu Snædal, forseta ASÍ, í tilkynningu frá ASÍ.

Atvinnurekendur hafa kallað eftir því að launahækkunum lífskjarasamninganna sem taka eiga gildi næstu áramót verði frestað. Verkalýðshreyfingin hefur ekki vilja verða við þeirri beiðni og kallað eftir því að stjórnvöld komi fremur að borðinu.