Alþýðusamband Íslands hefur lagt það til að sett verði inn í kjarasamninga ákvæði um hámarksverðbólgu, en SA hefur ekki tekið vel í þær hugmyndir.

Formenn stéttarfélaga innan Alþýðusambandsins funduðu í dag og sagði Gylfi Arnbjörnsson, forseti sambandsins, í samtali við fréttastofu RÚV að markmið fundarins hefði ekki verið að ákveða hvort samningunum verði sagt upp eða ekki. Það bíði betri tíma.

Farið hafi verið yfir stöðuna, en ASÍ hefur fundað með fulltrúum SA síðustu daga og farið yfir hvort eitthvað sé hægt að gera til að koma í veg fyrir að samningunum verði sagt upp. Hann segir að sú hugmynd hafi verið viðruð að framlengja samningana en þannig að sett væri inn í þá ákvæði, þar sem stefnt væri að því að halda verðbólgu innan við 3%. Væri verðbólga fyrir ofan það markmið féllu samningarnir þegar úr gildi.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, sagði í samtali við fréttastofu RÚV að slíkt ákvæði myndi auka verðbólguvæntingar og þar með hafa áhrif á verðbólguna sjálfa. Því væri hann mótfallinn því að ákvæðið yrði sett inn.