Hlutabréf hækkuðu í Asíu í dag og er þetta mesta hækkun á einum degi í þrjár vikur að sögn Bloomberg fréttaveitunnar en það voru helst bankar og iðnaðarfyrirtæki sem leiddu hækkanir dagsins.

MSCI Kyrrahafs vísitalan hækkaði um 1% og þó hækkunin sé ekki mikil hefur hún ekki hækkað svo mikið á einum degi frá því 16. júní s.l. en vísitalan náði í gær um eins og hálfs árs lágmarki.

Í Japan hækkaði Nikkei vísitalan um 0,2% en hafði um tíma hækkað um tæp 2% þegar olíu- og orkufyrirtæki drógu vísitöluna niður en olíutunnan, sem lækkaði nokkuð í Bandaríkjunum í gær, hefur þar mest áhrif að sögn Bloomberg.

Japönsku bankarnir Mitsubishi UFJ Financial Group og Mizuho Financial Group hækkuðu þó um 2,3% og 3,9% og héldu vísitölunni ofan við núllið.

Flugfélög stóðu flest í stað sem er nokkuð jákvætt þar sem þau hafa lækkað mikið undanfarið. Þannig virðist lækkandi olíuverð stöðva gengishrun þeirra.

Í Hong Kong hækkaði Hang Seng vísitalan um 2,8% og í Kína hækkaði CSI 300 vísitalan um 2,4%.

Þá hækkaði Straits vísitalan í Singapúr um 1,1% og í Ástralíu hækkaði S&P 200 vísitalan um 1,6%.