Hlutabréf hækkuðu verulega í Asíu í dag og hafa ekki hækkað jafn mikið á einum degi í sjö vikur að sögn Bloomberg fréttaveitunnar. Það voru helst fjármálafyrirtæki og rafmagnsvöruframleiðendur sem leiddu hækkun dagins en fjármálafyrirtæki í vísitölunni hækkuðu samfellt um 5,9%.

MSCI Kyrrahafs vísitalan hækkaði um 3,6% í dag og hefur ekki hækkað jafn mikið á einum degi frá 14. febrúar. Í Japan hækkaði Nikkei vísitalan um 4,2% og í Hong Kong hækkaði Hang Seng vísitalan um 3,2%.

Í Ástralíu hækkaði S&P/ASX 200 vísitalan um 2,6%.

Ástralski fjárfestingabankinn Macquarie hækkaði um tæp 10% í dag en bankinn „státar“ nú af því að vera ekki með neitt fjármagn tengt undirmálalánum í Bandaríkjunum, sagði Stephen Yan talsmaður bankans við fjölmiðla í dag. Þá hækkaði stærsti banki S-Kóreu, Kookmin um 11% eftir að greiningadeildir í Evrópu sögðu verð bankans vanmetið í gærkvöldi.