Hlutabréf hækkuðu nokkuð í Asíu í dag og hafa ekki hækkað jafn mikið á einum degi í rúmlega tvær vikur. Það voru helst bílaframleiðendur og flugfélög sem leiddu hækkanir dagsins að sögn Bloomberg fréttaveitunnar en olía hríðféll á mörkuðum í Asíu í dag og segir Bloomberg að rekja megi hækkun fyrrnefndra geira til þess.

MSCI Kyrrahafs vísitalan hækkaði í dag um 1,4% en vísitalan hefur hækkað verulega síðustu fjórar vikur eða um 8,5%.

Í Japan hækkaði Nikkei vísitalan um 1,7%, í Singapúr hækkaði Straits vísitalan um 0,6%, í Kína hækkaði CSI 300 vísitalan um 0,8% og í Ástralíu hækkaði S&P 200 vísitalan um 1,7%.

Mest var þó hækkunin í Hong Kong þar sem Hang Seng vísitalan hækkaði um 3,5%.

Eins og fyrr segir lækkaði verð á hráolíu á mörkuðum í Asíu nokkuð í dag eða um 5,4% og fór í um 114,6% dali. Bílaframleiðendur nutu góðs af því og hækkaði Honda um 3%, Nissan um 3,1% og Hyundai um 3,6% svo dæmi séu tekin.

Þá hækkaði Qantas flugfélagið um tæp 5%, China Air um 4% og Singapour Airlines um 3,8%.