Hlutabréf lækkuðu í Asíu í dag og hafa ekki lækkað jafn mikið á einum mánuði í 18 ár að sögn Bloomberg fréttaveitunnar. Eins og búist var við fer höfnun Bandaríkjaþings á svokölluðum björgunarpakka ríkisstjórnarinnar illa í fjárfesti eins og sástá mörkuðum í Bandaríkjunum í gærkvöldi.

MSCI Kyrrahafs vísitalan lækkaði um 3,4% í dag. Þannig hefur vísitalan lækkað um 4,9% s.l. fimm daga en um 14% í þessum mánuð og er þetta mesta lækkun á einum mánuði frá því í september 1990.

Í Japan lækkaði Nikkei vísitalan um 4,1% og hefur ekki verið lægri frá því í desember árið 2004. Í Ástralíu lækkaði S&P 200 vísitalan um 4,3%.

Í Kína, Hong Kong og Singapúr voru markaðir lokaðir í dag vegna hátíðar og frídaga í þeim löndum.