Tveir asískir bjórframleiðendur hafa lýst yfir áhuga á að kaupa evrópsku bjór-vörumerkin Peroni og Grolsch.

Vörumerkin leita nú að nýjum eigendum vegna samruna núverandi eigenda, SABMiller og AB-InBev. Til að fá samþykki samþykki samkeppnisyfirvalda þurfa fyrirtækin að losa sig við tiltekin vörumerki.

Japanska fyrirtækið Asahi Group Holding er samkvæmt heimildum The Wall Street Journal að undirbúa 3 milljarða dala tilboð í vörumerkin, það nemur um 390 milljörðum króna. Tælenska fyrirtækið Thai Beverage PCL hefur einnig lýst yfir áhuga á því að kaupa bjórtegundirnar. Auk þessara er búist við því að vörumerkin verði áhugaverð fyrir fjölda fjárfestingarsjóða og eignarhaldsfélaga.