Hækkun á asískum fjármálamörkuðum gekk að nokkru leyti til baka í nótt eftir uppsveiflu í kjölfar samkomulags stærstu ríkja heims við stjórnvöld í Íran um kjarnorkuáætlun landsins. Olíuverð lækkaði mikið í gær eftir að greint var frá samkomulaginu. Verð á Brent-olíu féll um 2,7% í gær þegar mest lét. Verð á hráolíu lækkaði sömuleiðis mikið. Lækkunin gekk að stórum hluta til baka eftir því sem á leið daginn en talsvert verðbil er þó enn á milli hráolíu og Brent-olíu. Reuters-fréttastofan segir að þótt samkomulagið sé aðeins til hálfs árs þá séu líkur á að það verði framlengt.

Nikkei-vísitalan í kauphöllinni í Tokíó lækkaði um 0,7% eftir verulega hækkun síðustu daga. Það skýrist aðallega af styrkingu jensins gagnvart bandaríkjadal.