Hlutabréf lækkuðu töluvert í Asíu í dag og voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins að sögn Bloomberg fréttaveitunnar.

Asískir markaðir fylgja þannig mörkuðum í Evrópu og Bandaríkjunum eftir síðan í gær en lokað var á flestum mörkuðum í Asíu í gær.

MSCI Kyrrahafs vísitalan lækkaði í dag um 4,2% sem er mest lækkun á einum degi frá því um miðjan janúar.

Í Japan lækkaði Nikkei vísitalan um 5%, í Hong Kong lækkaði Hang Seng vísitalan um 5,4% og í Kína lækkaði CSI 300 vísitalan um 4,2%.

Í Singapúr lækkaði Straits vísitalan um 1%, í Ástralíu lækkaði S&P 200 vísitalan um 1,4% en mesta lækkunin í Asíu í dag var í Suður Kóreu þar sem Kopsi vísitalan lækkaði um 6,1%.